NYHUGMYND.COM

RETINUS DEVELOPEMENT, since 1997

 

Allir fá góðar hugmyndir
– þú líka!

Neisti hugvits býr í öllum.  Góðar hugmyndir geta kviknað hjá hverjum sem er, án tillits til menntunar eða stöðu. 

 


OUR SPONSORS:


ÁTAK (Áhugasamtök um Tæknimiðstöð fyrir Almenning og Kennslu)

 

“ÁTAK” er félagsskapur sem vinnur einkum að undirbúningi þess að á Íslandi komist á fót tæknimiðstöð (e: science center) af svipaðri gerð og algengar eru í öllum þróuðum löndum heims.  Hér verður lítillega útskýrt hvað tæknimiðstöð er og sagt í stuttu máli frá samtökunum og markmiðum þeirra.  Nánari lýsingu á þessu öllu má sjá á heimasíðu ÁTAKs; www.tsi.is.  

Tæknimiðstöð er íslensk þýðing á hinu alþjóðlega heiti “science center”.  Kannski myndi orðið “fiktarasalur” lýsa þessu betur.  Engin svona stofnun er til á Íslandi í dag þó furðulegt sé, miðað við gagnsemi þeirra í öllum okkar nágrannalöndum.  Starfsemi og stærð tæknimiðstöðva er nokkuð mismunandi, en margt er þeim sameiginlegt.  Miðpunktur þeirra allra er leiktækjasalur.  Leiktækin hafa öll þann megintilgang að sýna fram á virkni eða staðreyndir af einhverju tagi, um leið og þau bjóða uppá skemmtun og leiki.  Með þannig gagnvirkni má á skemmtilegan hátt fræðast um ýmis lögmál eðlisfræði; náttúrufræði; stærðfræði; heilsufræði; jarðvísindi; samfélagsmál; umhverfisvernd og fjöldamargar aðrar greinar.  Leiktækin eru þannig hönnuð og uppsett að jafnt börn sem fullorðnir geta notað þau án aðstoðar.  Þau eru gerð til að þola mikið álag og standast ítrustu öryggiskröfur.  Sum þeirra líkjast því tækjum af leikvellinum; önnur líkjast tækjum úr tilraunastofum; enn önnur líkjast engu sem áður hefur sést.  Skemmtanagildið er í fyrirrúmi, en fræðslugildið er allsstaðar undirliggjandi þáttur.  Hvarvetna í grannlöndum okkar er litið á tæknimiðstöðvar sem ómissandi þátt í skólastarfinu, og heimsókn á eina slíka er árviss liður.  Allir vita að besta og fljótlegasta aðferðin við nám er upplifun.  Færri átta sig á hve þessi aðferð við kennslu getur verið mikilvæg fyrir nemendur sem eiga við lestrarerfiðleika og námsleiða að stríða.
En tæknimiðstöð er yfirleitt meira en þessi þáttur.  Í mörgum þeirra er að finna mikil söfn af einhverju tagi.  Oft eru það tæknisöfn sem lýsa tækniþróun viðkomandi lands, eða einstökum greinum hennar, en einnig geta tæknimiðstöðvar sérhæft sig í einstökum greinum t.d. náttúrufræði; einhverjum framleiðslugreinum eða geimvísindum.  Tæknimiðstöðvar gegna miklu hlutverki í menntakerfinu.  Sýningar þeirra eru settar upp með hliðsjón af námsskrá og í samráði við skólana.  Bekkjarhóparnir koma í heimsókn eftir áætlun og fá leiðsögn sérhæfðs starfsmanns.  Einnig eru settar upp sérsýningar og haldin námskeið; leigðir út salir til viðburða í sérstöku umhverfi; sinnt endurmenntun kennara í nýsköpun og raungreinum o.fl.  En ekki nóg með það.  Fræðsluferðum skólabekkjanna er fylgt eftir með rafrænum samskiptum skólans við tæknimiðstöðina, og efni á vef hennar.  Fjarlægari skólum er sinnt með því að gerður er út sérútbúinn bíll frá tæknimiðstöðinni.  Í honum heimsækja starfsmenn hina fjarlægu skóla og setja upp fræðslusýningar, og spara með því útgjöld við bekkjarferðir.  Margskonar starfsemi önnur getur fylgt tæknimiðstöðvum; s.s. framleiðsla leiktækja; rekstur á safnbúð; veitingastaðir og útleiga á sölum.

Á framangreindu má sjá hve gagnleg tæknimiðstöð getur verið fyrir skólastarfið.  Hinsvegar eru það alls ekki einu rökin fyrir tilvist þeirra.  Þó börn séu vissulega í meirihluta gesta, þá eru þessar stofnanir einnig mikið sóttar af fólki á öðrum aldri.  Þarna er skemmtistaður allrar fjölskyldunnar, þar sem börn geta notið fræðslu þeirra sem eldri eru.  Þær eru líka vinsælir áfangastaðir ferðafólks sem vill fræðast um menningu viðkomandi lands.  Tölur sýna að tæknimiðstöð er einn fjölsóttasti staðurinn á sínu svæði og skapar verulegar tekjur og umsvif.  Í Toronto-yfirlýsingunni frá 2008 er m.a. mælst til þess að öll börn heims geti átt kost á þjónustu tæknimiðstöðva í sínu námi.  Enn hafa þau skilaboð ekki náð eyrum íslenskra ráðamanna, þó vissulega hafi skilningurinn aukist fyrir tilstilli ÁTAKs.

ÁTAK, sem er skammstöfun á “Áhugasamtök um tæknimiðstöð fyrir almenning og kennslu”, voru stofnuð í ársbyrjun 2008.  Undirbúningsstarfið á þó mun lengri sögu.  Það má rekja til þess að upphafsmaðurinn; Valdimar Össurarson, stóð fyrir sýningu á verkum hugvitsmanna árið 2004.  Sýningin var mjög vel sótt, enda margt forvitnilegt að sjá.  Eftir sýninguna urðu umræður um sýningar, kynningar og fræðslu varðandi íslenska tækni og tækniþróun, og þótti augljóst að þeim þáttum væri illa sinnt.  Samanburður við þá þætti í grannlöndum okkar afhjúpaði vöntun á íslenskri tæknimiðstöð.  Eftir því sem fleiri aðilar í menntakerfi og atvinnulífi landsins voru spurðir álits óx fylgi við þá skoðun að stofna þyrfti íslenska tæknimiðstöð.  Málefnið barst inn á Alþingi og í ráðuneyti menntamála og iðnaðar.  Allir viðmælendur virtust á sama máli.  Alþingi veitti lítilsháttar styrk til undirbúnings, sem nýttur hefur verið til öflunar sérfræðiálita; kynnisferða erlendis og kynninga innanlands.  Kennaraháskóli Íslands skilaði vandaðri sérfræðiskýrslu, byggðri á aðkomu skólastjórnenda og kennslusérfræðinga, og niðurstaða hennar var afdráttarlaus; Tæknimiðstöð Íslands er tímabær nauðsyn.  Samhljóða álit komu frá Félagi raungreinakennara; Heimili og skóla; Félagi iðn- og tæknigreina og fjölmörgum öðrum.  Þessi mikli áhugi leiddi til þess að ÁTAK var stofnað, en það tók við undirbúningsstarfinu úr hendi Ferðamálafélags Flóamanna, sem Valdimar hafði einnig stofnað.  Hann var kjörinn í stjórn ÁTAKs, ásamt Elinóru Ingu Sigurðardóttur og Heimi Ólafssyni.  Við hlið ÁTAKs starfar sérfræðingateymi úr ýmsum greinum mennta- og atvinnulífs.  Einnig er ÁTAK í góðum tengslum við nokkrar erlendar tæknimiðstöðvar, sem eru reiðubúnar að veita aðstoð og sérfræðiþekkingu þegar af stofnuninni verður.  Þar fer fremst í flokki Ontario Science Centre í Toronto sem er ein elsta og stærsta tæknimiðstöð heims, og í forystu í Alþjóðasamtökum tæknimiðstöðva.  Einnig nokkrar tæknimiðstöðvar á Norðurlöndum.

Frá upphafi hefur undirbúningsstarf tæknimiðstöðvar átt mikið og gott samstarf við samtök hugvitsmanna, enda um sameiginlega hagsmuni að ræða að mörgu leyti.  Báðir aðilar vilja stuðla að eflingu nýsköpunar og hugvitsstarfs; varðveislu frumgerða og menningararfs og fleiri þáttum á því sviði.  Eitt af baráttumálum SFH er að koma á fót frumgerðasafni og láta skrá sögu hugvitsmanna.  Þessi mál eru samstarfsverkefni SFH, ÁTAKs og KVENN.  Þá má nefna að öll vinna þessi þrjú félög og eitt í viðbót að því að haldinn verði árlegur viðburður til kynningar á starfi hugvitsmanna og nýsköpun og til áhugavakningar á því sviði. 

Allir sem vilja leggja stefnumáli ÁTAKs lið geta orðið félagsmenn, án nokkurra skuldbindinga eða félagsgjalda.  Því fleiri félagsmenn; því vandaðri vinna og meiri þrýstingur á stjórnvöld að taka málefnið á dagskrá.  Hægt er að gerast félagsmaður með því að haka við á skráningarsíðu SFH, eða með því að hafa samband við verkefnisstjóra:

Valdimar Össurarson
s. 862 2345
tsi@tsi.is

Nánari upplýsingar um verkefnið eru á heimasíðunni; www.tsi.is.

 

Símanúmer og netföng stjórnarmanna SFH er að finna hér.