NYHUGMYND.COM

RETINUS DEVELOPEMENT, since 1997

 

Allir fá góðar hugmyndir
– þú líka!

SFH leggur áherslu á að allir njóti jafnræðis.  Með aðild að SFH opnast þér nýjar leiðir til að koma hugmyndinni í framkvæmd.  Innan okkar félags starfar fólk með margvíslega reynslu, menntun og sérhæfingu, sem aðrir félagsmenn öðlast aðgang að, um leið og þeir sjálfir geta e.t.v. miðlað á öðrum sviðum.  Þú getur t.d. komist í samand við ráðgjafa um styrki; fengið aðstoð við gerð viðskiptaáætlunar; fengið lögfræðilega ráðgjöf; fengið aðstoð við hönnun og teiknun; við nýnæmisathugun vegna einkaleyfis; við uppsetningu heimasíðu, og jafnvel verklega aðstoð við frumgerðasmíði o.þ.h.  Þú þarft ekki að hafa fullar hendur fjár í byrjun.  Félagsmenn með sérþekkingu eru reiðubúnir að veita byrjunaraðstoð að kostnaðarlausu, en að sjálfsögðu er gert ráð fyrir að verkefnið geti greitt fyrir sig þegar það þróast áfram og fer annaðhvort að njóta styrkja eða skila tekjum.  Fyrstu skrefin hafa reynst mörgum frumkvöðlinum erfiðasti hjallinn, og þá er stuðningurinn mikilvægastur.  Við viljum vera þér til aðstoðar. Með gagnkvæmum stuðningi komast hugmyndirnar í framkvæmd.   -SFH-

OUR SPONSORS:


FÉLAGSSTARF SFH

Aðalfundur Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna
8. nóvember 2010 á Kaffi Sólon, Reykjavík FUNDARGERÐ (.pdf)

Fréttir úr starfseminni – desember 2010 - FRÉTTABRÉF (.pdf)

ELDRI FRÉTTIR:

Uppfinningasýning Landsambands Hugvitsmanna - LHM (nú: SFH) í Hönnunarsafni Íslands, Garðabæ - MYNDIR

stjÓRN SFH - frá 5. nÓvember 2009
Eggert Ólafsson, Elinóra Inga Sigurðardóttir, Gísli Gíslason, Valdimar Össurarson, Róbert Rósmann

Starfsemi SFH er enn á mótunarstigi, eftir þær formbreytingar sem félagið gekk í gegnum í árslok 2008.  Meginatriði starfseminnar eru mótuð í lögum og stefnu, en margt á enn eftir að þróast í starfsháttum.  Helstu þættir starfseminnar eru:

Samskipti og félagsskapur.  Innan félagsins gefst hugvitsmönnum tækifæri til að ræða sín áhugamál og viðfangsefni við aðra félaga.  Hjá þannig jafningjum eru meiri líkur á skilningi og hvatningu en hjá öðrum, jafnvel þó engir frumkvöðlar hugsi eins eða fari sömu leiðir að markinu.  Sumt er þess eðlis að menn vilja hafa það fyrir sig um sinn, og um önnur mál þarf að gæta trúnaðar, en þar fyrir utan eru umræðuefnin næg.  Félagsmenn hittast á árlegum aðalfundum, málfundum og námskeiðum, en þess á milli geta þeir nýtt póstlista félagsins.  Það getur verið ómetanlegur stuðningur fyrir þann sem vinnur að frumherjastarfi, oft við takmarkaðan skilning og áhuga hins daglega umhverfis, að geta leitað félagsskapar og notið góðra ráða og hvatningar í jákvæðum hópi annarra frumkvöðla. 

Ráðgjöf innan SFH.  Þessum lið starfseminnar er nánar lýst undir flipanum við aðstoðum.  Innan félagsins er að finna mikla og margvíslega þekkingu, og fjölmargir félagar eru reiðubúnir að miðla af þekkingu sinni.  Stjórnarmenn félagsins getur haft milligöngu um að koma tengslum á í byrjun.  Þessi þáttur getur verið mikilvægur, ekki síst fyrir þá sem eru að hefja nýköpunarferil.  Fæstir eru sérfræðingar á öllum þeim sviðum sem nýsköpunarhugmynd þarfnast.  Þau svið geta t.d. verið verk- og tæknifræði í ýmsum greinum; hönnun og teikningar; einkaleyfaráðgjöf og nýnæmisrannsóknir; gerð viðskiptaáætlana og styrkjaumsókna; markaðsrannsóknir og –spár; heimasíðugerð og kynningarmál; lögfræði og alþjóðaviðskipta, svo eitthvað sé nefnt.  Innan SFH er að finna sérfræðinga á flestum þessum sviðum.  Þeir eru tilbúnir að veita viðtöl án greiðslu í byrjun.  Aðkoma sérfræðinga eykur líkur á fjármögnun og styrkjum, þróist verkefnið með þeim hætti, sem aftur eykur líkur á áframhaldandi sérfræðiaðstoð.  Einnig er leiðbeint með aðstoð og leiðir utan félagsins.

Barátta fyrir bættu starfsumhverfi.  Stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi er alls ekki nægilega skilvirkt, eins og fjöldi félagsmanna SFH getur vitnað um.  Því er það eitt helsta verkefni félagsins að beita sér fyrir úrbótum, og með því skapa félagsmönnum betri starfsskilyrði og auka líkur á því að nýsköpun þeirra nýtist til framfara og þjóðarhags.  Brýnt réttlætismál er t.d. að SFH fái sína fulltrúa í stjórnir og nefndir stofnana sem fjalla um og móta stefnu í nýsköpun, ennfremur að ná eyrum ráðamanna og stjórnvalda um framfaramál á þessu sviði.  Ennfremur þarf að fara í talnagreiningu og upplýsingasöfnun til að sýna framá hver sé raunveruleg staða hins almenna hugvitsmanns og frumkvöðuls innan stuðningskerfisins.

Fræðslustarf.  SFH stefnir að því að auka fræðslu meðal félagsmanna á mörgum sviðum.  Upphafið í þeim efnum var koma hins heimsþekkta fyrirlesara og frumkvöðuls Kaj Mickos haustið 2009, en hann fjallaði m.a. um nýjar aðferðir til árangurs í nýsköpun.  Líklegt er að áframhald verði á slíkum fyrirlestrum, ráðstefnum, málþingum og námskeiðum um einstök efni.  Umfjöllunarefni gætu t.d. orðið styrkjaumhverfið; gerð viðskiptaáætlana; einkaleyfi; markaðsmál; hönnun; vefsíðugerð og fjöldamörg önnur.  Framgangur fræðslustarfsins er að sjálfsögðu háður fjármögnun.

Kynningarmál og sýningar.  Nokkrum sinnum hafa verið haldnar sýningar á verkum hugvitsfólks.  Undantekningarlaust vekja þær mjög mikinn áhuga og eru fjölsóttar.  Sýningarnar hafa margvíslegan tilgang.  Fyrir almenning er alltaf forvitnilegt og skemmtilegt að skoða nýjungar og fylgjast með vaxtarsprotum.  Fyrir hugvitsmanninn geta sýningar verið mikil hvatning og viðurkenning, auk þess e.t.v. að auka líkur á sölu eða notkun.  Fyrir nýsköpunarstarf og þjóðarhag almennt eru slíkar sýningar mikil hvatning og hugmyndauppspretta til áframhaldandi nýsköpunar.  Stefnt er að því að gera þetta sýningahald að reglulegum lið í starfsemi félagsins, og þá líklega í tengslum við fyrirhugað ársþing nýsköpunarfélaga. 

Frumgerðasafn og ritun hugvitsmannasögu.  Söfnun á verkum hugvitsmanna hefur lengi verið áhugamál samtaka hugvitsmanna.  Eftir að undirbúningsstarf hófst að Tæknimiðstöð Íslands var efnt til samvinnu við þá sem að því stóðu, um að frumgerðasafn yrði hluti af tæknimiðstöðinni.  Nú vinna stjórnir SFH og KVENN í góðu samstarfi við undirbúningsfélagið ÁTAK að þessu málefni.  Þó hægt hafi miðað eru nokkrir áfangar að baki, svo sem ýmis rannsóknarvinna og gerð sérfræðiálita.  Stjórnvöld hafa verið þessu starfi hliðholl, og hefur Alþingi veitt lítilsháttar fé til undirbúnings.  En verkefnið þolir ekki endalausa bið:  Stöðugt glatast menningarverðmæti með því að frumgerðir týnast.  Vitað er af fjölda gripa sem fljótlega væri hægt að drífa á safn og sýna ef fjármagn, aðstaða og umsjón væri fyrir hendi.  Nánar er um þetta fjallað á vefsíðu ÁTAKs; www.tsi.is.
Annað atriði nátengt þessu er nú samvinnuverkefni SFH, KVENN og ÁTAKs, en það er skráning á sögu hugvitsmanna.  Stórt skarð er í sagnaritun okkar miklu bókaþjóðar þegar kemur að þeim burðarásum íslenskrar menningarsögu sem eru hugvitsmenn.  Mikilvægt er að þetta verk geti hafist sem fyrst:  Það fólk sem var í fararbroddi hinnar miklu vél- og tæknivæðingar hérlendis um miðja síðustu öld er nú óðum að hverfa af sjónarsviðinu.  Með því hverfur dýrmætur fróðleikur og þáttur okkar menningarsögu.  Verður því að vona að fé fáist fljótlega til að hefja þessa sagnaritun á vandaðan og faglegan hátt.