NYHUGMYND.COM

RETINUS DEVELOPEMENT, since 1997

 

Allir fá góðar hugmyndir
– þú líka!

SFH leggur áherslu á að allir njóti jafnræðis.  Með aðild að SFH opnast þér nýjar leiðir til að koma hugmyndinni í framkvæmd.  Innan okkar félags starfar fólk með margvíslega reynslu, menntun og sérhæfingu, sem aðrir félagsmenn öðlast aðgang að, um leið og þeir sjálfir geta e.t.v. miðlað á öðrum sviðum.  Þú getur t.d. komist í samand við ráðgjafa um styrki; fengið aðstoð við gerð viðskiptaáætlunar; fengið lögfræðilega ráðgjöf; fengið aðstoð við hönnun og teiknun; við nýnæmisathugun vegna einkaleyfis; við uppsetningu heimasíðu, og jafnvel verklega aðstoð við frumgerðasmíði o.þ.h.  Þú þarft ekki að hafa fullar hendur fjár í byrjun.  Félagsmenn með sérþekkingu eru reiðubúnir að veita byrjunaraðstoð að kostnaðarlausu, en að sjálfsögðu er gert ráð fyrir að verkefnið geti greitt fyrir sig þegar það þróast áfram og fer annaðhvort að njóta styrkja eða skila tekjum.  Fyrstu skrefin hafa reynst mörgum frumkvöðlinum erfiðasti hjallinn, og þá er stuðningurinn mikilvægastur.  Við viljum vera þér til aðstoðar. Með gagnkvæmum stuðningi komast hugmyndirnar í framkvæmd.   -SFH-

OUR SPONSORS:


SamtÖk frumkvÖÐLA OG HUGVITSMANNA - FRÉTTIR

Unnið að bættu lagaumhverfi.


Eitt af meginverkefnum stjórnar SFH er að beita sér fyrir lagfæringum á því lagaumhverfi sem frumkvöðlar búa við.  Þar eru verkefnin næg, eins og við öll vitum.  Nokkuð hefur verið um það í seinni tíð að frumvörp og önnur þingmál séu send SFH með umsagnarbeiðni, og ber að sjálfsögðu að fagna aukinni tillitsemi Alþingis. 
Stjórnin gerði m.a. breytingartillögur við „þingsályktunartillögu að stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010-2013“.  Einkum beindust þær að því að aukið tillit verði tekið til starfsemi frumkvöðla á byrjunarstigi og að SFH fái að taka þátt í mótun starfsumhverfis frumkvöðla í auknum mæli.  Þá mættu fulltrúar SFH á fund efnahags- og skattanefndar Alþingis fyrir skömmu til að fylgja eftir umsögn sinni um breytingar á „lögum nr 152/2009 um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki“.  Þessi lög eru ekki nema ársgömul og gerði stjórnin breytingatillögur í upphafi með nokkrum árangri.  Breytingartillögurnar núna sneru einkum að kaflanum um skattalegar ívilnanir nýsköpunarfyrirtækja.  Að óbreyttu gerir frumvarpið ráð fyrir að öll nýsköpunarfyrirtæki sem hafi til þess viðurkenningu Rannís og séu af réttri stærð eigi kost á ívilnun tekjuskatts, en þó með þeim takmörkunum að ívilnun og opinber framlög mega ekki fara yfir ákveðið mark.  Þessi takmörkun útilokar nánast öll nýsköpunarfyrirtæki á byrjunarstigi, sem eiga allan stuðning undir þeim stopulu opinberu styrkjum sem þeim tekst að harka út.  Þar sem margir félagar SFH reka fyrirtæki í þeirri stöðu þótti stjórn rétt að gera athugasemd við þessa mismunun; uppruni tekna ætti ekki að skipta máli þegar ívilnanir eru veittar.  Gerðar voru athugasemdir við að nú skuli heimila ívilnanir til opinberra fyrirtækja, um leið og einyrkjum á byrjunarstigi nýsköpunar er haldið úti.  Þá var farið fram á aðild SFH að fagnefnd sem á að verða Rannís til ráðgjafar við vottun.  Fleira hefur verið unnið í umhverfi laga og reglugerða.  Athugasemdir voru sendar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra vegna vankanta á reglugerð nr 12/2009.  Með þeirri reglugerð, sem sett var í kjölfar bankahrunsins, átti að nýta sköpunarkraft atvinnulausra frumkvöðla.  Annars vegar með heimild frumkvöðuls til að gera samning við Vinnumálastofnun um vinnu að eigin viðskiptahugmynd á atvinnuleysisbótum án þess að vera í atvinnuleit.  Hinsvegar með því að heimila nýsköpunarfyrirtækjum að ráða til sín fólk af atvinnuleysisskrá á taxtalaunum og fá bætur þeirra í meðlag.  Nú hafa komið í ljós tvær brotalamir á þessari reglulugerð.  Annarsvegar er það þannig að frumkvöðull sem hefur vinnu að sinni hugmynd er sviptur atvinnuleysisbótum haldi hann áfram að vinna að verkefninu eftir að hinum stutta samningstíma við Vinnumálastofnun lýkur.  Með því er frumkvöðlum refsað fyrir nýsköpun sína, sem er algjört brot á upphaflegum tilgangi reglugerðarinnar.  Hinsvegar er fyrirtækjum í nýsköpun meinað að ráða til sín atvinnuleysingja sem áður hefur verið á samningi við Vinnumálastofnun vegna vinnu að nýsköpun!  Þannig túlkar Vinnumálastofnun þessa reglugerð, og gengur með því í berhögg við tilgang stjórnvalda í upphafi.  Verður að vona að ráðherra bregðist við og lagfæri þessi atriði, enda full þörf á að nýta hugvit og krafta þess fjölda fólks sem nú gengur atvinnulaust.  Áfram verður unnið að tilraunum til umbóta á regluumhverfinu eftir því sem tækifæri gefast.

 

SFH fær framlag á fjárlögum

Þau tímamót hafa nú orðið í starfsemi SFH að þau hljóta nú í fyrsta skipti framlag á fjárlögum Alþingis; eina milljón króna.  Þetta er að vísu ekki há fjárhæð og fékkst enganveginn fyrirhafanarlaust.   Allt frá því að hugvitsmenn stofnuðu sitt fyrsta félag hafa sjóðir verið meira og minna tómir.  Þrátt fyrir að einstaka sinnum hafi önglast inn einhverjir styrkir hefur ráðstöfunarfé verið afskaplega takmarkað.  Ekki einungis hefur allt starf verið í sjálfboðavinnu stjórnarmanna heldur hafa þeir einnig þurft að greiða útlagðan kostnað úr eigin vasa.  Slíkur aðbúnaður samtakanna er stjórnvöldum til skammar, enda beinist öll starfsemin að því að efla nýsköpun og auka með því atvinnu- og verðmætasköpun í samfélaginu.  Þráfaldlega hefur verið synjað um styrki frá ráðuneytum og stofnunum á sviði nýsköpunar.  Nú sótti stjórn SFH í fyrsta skipti um framlag beint til fjárlaganefndar Alþingis.  Formaður fylgdi umsókninni eftir með viðtali, þar sem henni var vel tekið.  Vonbrigðin urðu því nokkur þegar fyrstu tillögur lágu fyrir; ekki króna til SFH.  Þingmönnum var þá á það bent að fjöldi margvíslegra liða væri tryggur með sín framlög.  M.a. var inni fjárveiting til landnámshænunnar, og voru þingmenn spurðir hvort hennar framlag væri meira metið en framlag hugvitsmanna og frumkvöðla (með fullri virðingu þó fyrir þeim þarfa fugli).  Fór svo að á elleftu stundu var SFH tryggt það óverulega framlag sem um var beðið, enda ljóst að það myndi vart setja ríkissjóð á hausinn frekar en orðið er.  Þessi fjárhæð dugir ekki til neinna stórútgjalda, en gerir þó samtökunum kleift að standa undir lágmarkskostnaði við sinn rekstur.  Áfram mun öll vinna verða í sjálfboðavinnu svo sem verið hefur.  Að sjálfsögðu vænta frumkvöðlar þess að augu stjórnvalda opnist að fullu fyrir mikilvægi og möguleikum þess starfs sem SFH stendur fyrir, og að samtökunum verði tryggður góður starfsgrundvöllur til frambúðar.   Stjórn SFH þakkar Alþingi fyrir þennan viðurgerning og væntir góðs samstarfs.

 
 
 
 
 
 
 

Stjórnarmenn SFH eru:

Valdimar Össurarson, formaður guva@simnet.is S. 862 2345
Elinóra Inga Sigurðardóttir, meðstj. elinoras@gmail.com S. 898 4661
Sighvatur Lárusson, ritari sighvatur@nle.is
Eggert Ólafsson, gjaldkeri girding@visir.is
Gísli Gíslason, varamaður gisli.gislason@gmail.com
Róbert Rósmann varamaður ballans@simnet.is