NYHUGMYND.COM

RETINUS DEVELOPEMENT, since 1997

 

Allir fá góðar hugmyndir
– þú líka!

Neisti hugvits býr í öllum.  Góðar hugmyndir geta kviknað hjá hverjum sem er, án tillits til menntunar eða stöðu.  Hinsvegar er mjög misjafnt hvernig þær nýtast.  Þar ræður mestu úrvinnsla okkar sjálfra, en einnig ytri aðstæður og sá stuðningur sem umhverfið býður uppá.  Fæstir hafa tíma, fé eða aðstöðu til að hella sér útí kostnaðarsama þróun og kynna sér í þaula þann frumskóg styrkja, stofnana, laga og reglugerða sem uppfinninga- og frumkvöðlastarf snertir.  Þar við bætist að opinbert stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi hefur ekki þjónað hinum almenna frumkvöðli sem skyldi.  SFH leggur áherslu á að allir njóti jafnræðis.  Með aðild að SFH opnast þér nýjar leiðir til að koma hugmyndinni í framkvæmd.  Innan okkar félags starfar fólk með margvíslega reynslu, menntun og sérhæfingu, sem aðrir félagsmenn öðlast aðgang að, um leið og þeir sjálfir geta e.t.v. miðlað á öðrum sviðum.  Þú getur t.d. komist í samand við ráðgjafa um styrki; fengið aðstoð við gerð viðskiptaáætlunar; fengið lögfræðilega ráðgjöf; fengið aðstoð við hönnun og teiknun; við nýnæmisathugun vegna einkaleyfis; við uppsetningu heimasíðu, og jafnvel verklega aðstoð við frumgerðasmíði o.þ.h.  Þú þarft ekki að hafa fullar hendur fjár í byrjun.  Félagsmenn með sérþekkingu eru reiðubúnir að veita byrjunaraðstoð að kostnaðarlausu, en að sjálfsögðu er gert ráð fyrir að verkefnið geti greitt fyrir sig þegar það þróast áfram og fer annaðhvort að njóta styrkja eða skila tekjum.  Fyrstu skrefin hafa reynst mörgum frumkvöðlinum erfiðasti hjallinn, og þá er stuðningurinn mikilvægastur.  Við viljum vera þér til aðstoðar. Með gagnkvæmum stuðningi komast hugmyndirnar í framkvæmd.   -SFH-

OUR SPONSORS:


FYRSTU SKREFIN

Ert þú frumkvöðull eða hugvitsmaður?
Öll reynum við að leysa úr vandamálum; komast af; auka afköst og létta okkur lífið.  Stundum kemur fyrir að við förum nýjar leiðir og finnum nýjar lausnir.  Þá má segja að við “hugsum útfyrir kassann”.  Það getur gerst með ýmsu móti.  Sumir eiga létt með að hugsa óhefðbundið, og virðist sem þeir hafi eitthvað eðlislægt innsæi og útsjónarsemi.   Aðrir leita nýrra og betri lausna á einu tilteknu vandamáli, oft með rökfræðina eina að vopni.  Og svo eru þeir sem detta niður á lausn fyrir tilviljun.  

Hugtök hafa verið dálítið á reiki í þessum efnum.  Hér eru skilgreiningar SFH:
“Hugvitsmaður”, eða “uppfinningamaður” (e: inventor) er sá sem finnur upp ný tæki, nýja vöru eða nýja þjónustu.  “Frumkvöðull” (e: innovator) er sá sem drífur áfram nýjung og kemur henni í hagnýt not. 

Frumkvöðull getur því kallast hver sá sem beitir nýrri aðferð, hvort sem það er á sviði þjónustu eða tækni.  Félagsmenn í SFH geta yfirleitt fallið í annanhvorn þessara flokka eða báða, en félagið er einnig opið öllum þeim sem hafa áhuga á þessum sviðum og vilja efla framgang þeirra, jafnvel þó þeir sjálfir stundi ekki frumkvöðlastarf.
Rétt er þó að bæta því hér við að sumir vilja nota þrengri skilgreiningar.  Telja þeir að sá geti ekki talist uppfinningamaður sem innleiðir nýja aðferð í þjónustu og viðskiptum, heldur einungis þeir sem hafi sýnt fram á aðferð eða tæki sem talist geti einkaleyfishæft.  Almennt er talið að orðin “frumkvöðull” og “nýsköpun” séu orðin ofnotuð og útþynnt á síðari árum.

Gerðu eitthvað í málunum!
Hvað á að gera ef maður hefur góða hugmynd sem virðist vera ný og betri en þær sem fyrir eru; geti skapað verðmæti; létt vinnu eða á annan hátt orðið til framfara?  Hægt er að fara ýmsar leiðir til að sannreyna hugmyndina og hrinda henni í framkvæmd, og um sumar þeirra verður rætt hér.  Það sem ætti síst að gera er að kasta hugmyndinni frá sér að ástæðulausu, eða geyma úrvinnslu hennar svo lengi að hún gleymist eða aðrir grípi frumkvæðið.  Hinsvegar er alltaf gott að “rasa ekki um ráð fram” og hugsa vel og rökrétt áður en lagt er í aðgerðir.  Hér er bent á nokkur ráð fyrir þá sem eru með hugmynd á upphafsstigi.

Fyrsta skref:  Rökhugsun og sjálfsmat.
Sá sem heldur að hann hafi fundið nýja og einstaka lausn ætti m.a. að íhuga eftirfarandi:

 • Er ég með uppfinningu (hugmynd, aðferð, vöru) sem ekki hefur verið til/notuð áður?
 • Er mín uppfinning á einhvern hátt betri en það sem áður var þekkt?
 • Er ég að þjóna nýjum neysluhópi, eða gera það með betri aðferðum?
 • Get ég boðið mína aðferð/vöru/þjónustu á betra verði en aðrir?

Ef þú ert viss um að geta svarað a.m.k. einu þessara atriða játandi, þá ertu einu skrefi nær því að teljast uppfinningamaður og/eða frumkvöðull.  En svör við þessum spurningum liggja ekki alltaf í augum uppi.  Oft þarf að fara í mikla upplýsingaleit og/eða útreikninga.  Því svörin verða að fást og vera rétt.  Því betur og sanngjarnar sem þú metur hugmynd þína í byrjun; því betur gengur þér að gera hana að raunveruleika.  Erfiðleikar við að svara þessum spurningum hafa fælt marga frá því að koma hugmyndum á framfæri, og þannig hafa fjöldamörg tækifæri glatast.  Misjafnt er hve menn eru ráðagóðir og útsjónarsamir við upplýsingaleit.  Góð og víðtæk eigin þekking er mikill kostur; hvort sem hennar er aflað með sjálfsnámi eða í skóla.  Internetið getur veitt gífurlegar upplýsingar, kunni fólk að nota það.  Stundum liggur fyrir hvar upplýsinga er að leita, en í öðrum tilvikum getur þurft að nota leitarvélar.  Þá er mikilvægt að geta gert sér grein fyrir leitarorðum og aðalatriðum.  Upplýsingar má einnig fá úr bókum og öðru prentmáli, og þá getur verið gott að leita á bókasöfnin. 
Svo er sjálfsagt að leita til þeirra sem kunna að geta veitt leiðbeiningar og góð ráð, án þess að kostað sé of miklu til í upphafi.  E.t.v. leynist nytsöm þekking í kunningjahópnum, en einnig eru starfandi ráðgjafastofur sem hafa hlutverk á þessu sviði.  Annarsstaðar á þessari vefsíðu er yfirlit yfir nokkra slíka aðila.  En kannski liggur beinast við að leita ráða hjá jafningjum sem þurft hafa að kljást við svipuð vandamál.  Hafðu samband við SFH og kannaðu hvaða stuðningsleiðir eru þar í boði.

Annað skref:  Skráðu þig í SFH eða KVENN
SFH; Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna, er tengslahópur frumkvöðla og hugvitsfólks sem hefur margháttaða reynslu og er reiðubúið að miðla öðrum af henni.  Félagið vinnur að eflingu frumkvöðla- hugvitsstarfsemi á víðum grunni og vill auðvelda framgang nýrra hugmynda.  KVENN; Félag kvenna í nýsköpun, vinnur að svipuðum markmiðum.  Í þessum félögum starfar fólk með margháttaða menntun og reynslu.  Öllum er þeim sameiginlegt að hafa mikinn áhuga á framgangi nýrra hugmynda, og sumir félagsmenn hafa mikla reynslu í að koma hugmyndum á framfæri.  Ekki er síður dýrmætt fyrir þá sem eru að byrja að þróa hugmyndir að fá ábendingar um það sem helst ætti að varast í þessum efnum; leiðir sem margir gætu freistast til að fara, en hafa reynst öðrum ófærar og dýrkeypt reynsla. 
Aðild að SFH er góður kostur fyrir þá sem eru á byrjunarstigi með sínar hugmyndir.  Þar gefst kostur á að ræða við fólk með margháttaðan bakgrunn, menntun og reynslu.  Því er unnt að fá þar fyrsta mat á raunhæfi hugmynda; fræðast um styrkjaleiðir sem í boði eru og komast í tengsl við sérfræðinga á sviði áætlanagerðar; hönnunar; markaðssetningar; verkfræði og fleiri greinum, sem eru félagsmenn SFH. 
Mögulegt er að semja um einhverja sérfræðiaðstoð í byrjun án greiðslu, en um það þarf að ræða í hverju tilfelli.  Mögulegt er að þú getir sjálf/sjálfur miðlað þekkingu á þínum sérsviðum, og þannig gerst mikilvægur ráðgjafi á vegum SFH.  Skráning er mjög einföld:  Hér sést hvernig unnt er að komast í samband við stjórnarmenn SFH.  Þú gefur upp nafn, kennitölu, tölvupóstfang og heimilisfang og ert skráð/skráður.  Síðan er ákveðið hver næstu skref verða, óskir þú eftir viðtölum eða ráðgjöf.
Með félagsaðild að SFH eða KVENN aukast líkur á að hugmyndin komist í framkvæmd.  Alltaf er betra að vita af stuðningi og hvatningu jafningja í slíku baklandi; geta rætt málin og leitað ráða. 

Þriðja skref:  Áætlanagerð og fjármögnun
Næstu skref í þróun þinnar hugmyndar byggjast á eðli hennar.  Útilokað er að benda á eina leið sem hentar öllum, þar sem úrlausnirnar eru af fjölbreytum toga ekki síður en hugmyndirnar.  Flestum hugmyndum sem á að markaðssetja er þó sameiginlegt að þurfa byrjunarfjármagn til að komast í arðbæra notkun.  Sjóða- og stuðningskerfi sem ætlað er að styðja nýjar hugmyndir er flókið fyrir þá sem ekki þekkja til, og virðist flækjustigið sífellt aukast.  En öll þau úrræði leggja sömu meginkröfur á herðar hugmyndasmiðsins; 

 • Vertu skipulagður og skýr í hugsun og gerðu þér góða grein fyrir hvað þú vilt.
 • Metnaður er nauðsynlegur, en settu þér samt raunhæf markmið.
 • Vertu tilbúinn að rökstyðja raunhæfi og arðsemi hugmyndarinnar.
 • Veittu viðkomandi aðilum góðar upplýsingar, en varastu óþarfa uppljóstranir.
 • Leitaðu til réttra aðila, og í réttri röð.

Séu þessi atriði í góðu lagi ættirðu að eiga góða möguleika.  En eins og margir okkar félagsmenn vita geta mörg ljón leynst í þessum frumskógi, og frumkvöðullinn verður að vera brynjaður af þolinmæði og þrautseigju ef hann vill ná settu marki.   Flestir sjóðir á frumkvöðlastigi eru samkeppnissjóðir.  Þeir sem best geta rökstutt mikilvægi og raunhæfi sinnar hugmyndar eiga mesta von um stuðning.  Sá er allavega tilgangur sjóðanna, þó stundum hafi komið upp aðrar hliðar á framkvæmdinni.  Því reynir verulega á vandaða vinnu; markmiðssetningu og úthald umsækjandans.  Þá er gott að geta leitað ráða hjá þeim sem reynsluna hafa, t.d. innan raða SFH og KVENN.

Eftirfarandi gæti verið ferill hugmyndar sem snýr að þróun einkaleyfishæfs tækis:

 1. Hugmyndin fæðist og er ígrunduð frá öllum hliðum.
 2. Hugvitsmaðurinn leitar sér upplýsinga á eigin vegum, t.d. í gagnabönkum.
 3. Gegnum aðild að SFH eða KVENN fást upplýsingar um leiðir o.fl.
 4. Komið er á samstarfi við sérfræðilega ráðgjafa.
 5. Gerðar eru vandaðar lýsingar og áætlanir og raunhæfi kannað eins og kostur er.
 6. Reynist tækið nýjung, er undirbúin einkaleyfisumsókn og aflað styrkja til þess
 7. Einkaleyfisstofa lætur gera nýnæmisrannsókn og gefur út einkaleyfi.
 8. Aflað er samstarfsaðila vegna prófana; bæði fjármögnunar og sérfræðiþekkingar.
 9. Gerðar eru forprófanir, og á grundvelli þeirra eru gerðar vandaðar áætlanir.
 10. Leitað er eftir fjármögnun.  T.d. starfsstyrkjum úr samkeppnissjóðum.
 11. Leitað er eftir aðild erlendra samstarfsaðila, ef og þegar það á við.
 12. Gerðar eru lokaprófanir, e.t.v. með aðild samstarfsaðila, og endanlegar áætlanir.
 13. Markaðssetning gæti e.t.v. hafist á þessu stigi.
 14. Dreifing, sala og notkun.
 15. Frekari þróun tækisins.

Þessi listi gefur e.t.v. hugmynd um nokkra þá þætti sem hugmynd getur þurft að fara í gegnum áður en hún verður að nothæfri vöru.  Það skal ítrekað að hér er einungis um tilbúið dæmi að ræða.  Ekki er víst að öll ný tæki fari þennan feril.  Mismunandi er hvaða þætti hugvitsmaðurinn annast sjálfur.  Hugmyndir eru af svo margbreytilegu tagi að segja má að hver og ein hafi sinn feril.  Því getur verið ómetanlegt fyrir hugvitsmenn að eiga aðgang að hinu víða þekkingarneti og stuðningi sem er að finna innan SFH.

Hafðu samband.

Símanúmer og netföng stjórnarmanna SFH er að finna hér.